1951: Afmælismót TR – Rossolimo mótið

AFMÆLISMÓTIÐ

Síðari hluti Afmælismóts Taflfélags Reykjavíkur, almennt nefnt „Rossolimomótið“ fór fram í Listamannaskálanum í Reykjavík dagana 5.-18. febrúar síðastliðinn.

Eins og vænta mátti var aldrei tvísýnt um það, hverjum félli 1. sætið í skaut. Hin örugga og þrautþjálfaða hernaðartækni Rossolimos brást hvergi, og komst enginn okkar manna nokkru sinni nærri því að standa yfir höfuðsvörðum hans. Hins vegar hlýtur sú staðreynd að hita okkur um hjartaræturnanr, að ýmsir af okkar mönnum veittu honum harða keppni í hinum einstöku skákum og þremur þeirra tókst að gera jafntefli við hann, þ. e. þeim Guðjóni M. Sigurðssyni, Baldri Möller og Ásmundi Ásgeirssyni. Ver tókst til fyrir Guðmundi S. Guðmundssyni, sem sigraði Rossolimo í Amsterdam. Rossolimo telfdi nú af ó-bifanlegu öryggi og eftir 40 leikja viðureign var viðnám Guðmundar brotið á bak aftur. Skákin birtist á öðrum stað í blaðinu.

Hvað vinningatölu snerti, veitti hinn ungi skáksnillingur Friðrik Ólafsson Rossolimo harðasta keppni framan af og gekk svo fram að 6. umferð, en þá. skyldu þeir Friðrik og Rossolimo tefla saman, og voru þeir þá jafnir og efstir með 3 1/2 vinning hvor.

Þeir voru margir, er lögðu leið sína niður í Listamannaskála mánudaginn 12. febrúar, er viðureignin skyldi hefjast, og eftir skamma stund var þar húsfyllir. Friðrik hafði hvítt og lék drottningarpeði, en Rossolimo svaraði með hollenzkri vörn. Framan af skákinni hélt Friðrik allvel í horfinu, en er líða tók á skákina varð hann fyrir jafnvaxandi sóknaráleitni Frakkans. Vörnin varð æ erfiðari. Friðrik lenti í tímahraki, sem honum var ofviða að sleppa lifandi úr og gafst hann upp eftir 36 leikja baráttu með tapaða stöðu. Skákin birtist á öðrum stað hér í blaðinu.

Eftir þetta skildu leiðir með þeim Rossolimo og Friðrik. Rossolimo stakk af og varð eigi framar náð.

Hófst nú allströng barátta milli þeirra Friðriks og Guðjóns um annað sætið, sem náði hámarki með skák þeirra í síðustu umferð. Lauk þeirri skák með jafntefli, og urðu þeir jafnir í 2. og 3. sæti 11% vinning fyrir neðan Rossolimo.

Baldur Möller, sem varð fjórði á mótinu, telfdi örugglega, en þó tæpast af þeirri  snerpu, sem honum er lagin. Hann tapaði einungis fyrir Guðmundi S. Guðmundssyni, og virtist hann tefla þá skák langt undir venjulegum styrkleika.

Guðmundur S. Guðmundsson mun hafa valdið aðdáendum sínum vonbrigðum með útkomu sinni á mótinu, og miðað við frammistöðu hans í Amsterdam, er hann engan veginn fullsæmdur af 50%  vinninga á móti sem þessu. Skákir hans voru flestar fremur tilþrifaslitlar og báru lítil merki hins tillitslausa sigurvilja sem einkenndi margar skákir hans í Amsterdam. Að vísu hefur áhlaupaorkan aldrei verið sterkasta hlið Guðmundar, en úthaldið og þolgæðin, að sjálfsögðu ásamt hans ágætu skákhæfileikum, átt drýgri þátt í sigrum hans. En Guðmundur virtist ekki leggja mikla áherzlu á það, að setja þessa styrkleikaþætti á oddinn á afmælismótinu, enda stundaði hann erilsama vinnu, meðan a mótinu stóð, auk þess  sem skipulagning mótsins hvíldi að miklu leyti á hans herðum.

Ásmundi Ásgeirssyni hættir til að. vanmeta getu ungra skákmanna, og má þangað rekja orsakir margra ósigra hans á síðustu árum, svo sem er hann lék af sér manni snemma skákar gegn Guðmundi Pálmasyni i Landsliðskeppninni 1948. Tapskákir hans nú gegn Guðjóni og Friðrik voru að vísu sneiddar svo stórfelldum fingurbrjótum, en þó var eitthvað losaralegt við þær, einkum skákina gegn Guðjóni, einhver víxlsporatilhneigng og skortur á raunsæi og hlutlægu mati. Hins vegar voru sumar aðrar skákir hans, t. d. gegn Árna Snævarr, markvíst og vel tefldar.

Þeir Eggert Gilfer og Árni Snævarr eru hrapaðir úr efsta toppi íslenzkra skákmanna og geta þó enn sýnt snerpu og tilþrif„ ef svo ber undir.

Gefið var í skyn í febrúarhefti SKÁKRITSINS, að tæpast væri hægt að tengja miklar vonir við þátttöku Steingríms Guðmundssonar og Sturlu Péturssonar í mótinu. Þetta reyndist að miklu leyti rétt, en þó sneru þeir ekki með öllu slyppir og snauðir frá bardaganum, og að öllum málsatvikum athuguðum, gæti manni virzt, að þeir fengju að mestu sparað sér. sára óánægju með sinn hlut.

Annars voru úrslit mótsins mikill sigur fyrir hina uppvaxandi kynslóð íslenzkra skákmanna. Þeir Guðjón M. Sigurðsson og Friðrik Ólafsson skutu aftur fyrir sig hinum þrautþjálfuðu og kunnu skákgörpum Baldri Möller, Guðmundi S. Guðmundssyni og Ásmundi Ásgeirssyni, svo að aðeins sé stiklað á þeim stærstu.

Það hefði ekki’ þótt trúlegt fyrir svona 4-5 árum, að þessum þremur jörmunrekum íslenzkrar skáklistar yrði bólað til hliðar af nýslegnum riddurum skákreglunnar, svo sem Guðjón og einkum Friðrik verða að teljast.  En enginn fær stöðvað franmþróunina, enda væri það eflaust hæpinn hagnaður.

Einn kemur öðrum meiri á hvaða sviði sem er.  Og það er ekki af neinni meinfýsni gagnvart hinum eldri meisturum, að við fögnum af hjarta framgangi hinna ungu garpa og óskum þeim glæsilegrar framtíðar. Og þar sem hinir yngri brjótast fram eftir farvegi, er af hinum eldri  var ruddur, fer fátt betur saman en frómar óskir til beggja aðila.

Segja má um mót þetta, að það færi í flesta staði vel fram, miðað við þær aðstæður, sem hér eru fyrir hendi til að halda skákmót.

Listamannaskálinn er þrífaIegur og rúmgóður salur, en nokkuð kaldur í rysjóttum veðrum. Því miður eru þar ekki aðstæður til að útskýra skákir fyrir áhorfendum jafnóðum og þær eru tefldar eins og á Skákþingi Norðurlanda í sumar.

Áhorfendur voru margir fyrstu 6 umferðirnar, en fór mjög fækkandi eftir skák þeirra Rossolimos og Friðriks, en þá fjaraði Spenningurinn um úrslit mótsins, sem var fyrir hendi hjá allmörgum, mjög út. Aðgangur var alldýr, eða 10 krónur, og mun það mjög hafa átt sinn þátt í að fæla áhorfendur frá, enda munar menn um hverja krónuna á þeim hallæristímum, er nú eru.

Skákstjóri var Áki Pétursson.

Skák nr. 54
Hvítt: Friðrik Ólafsson
Svart: Rossolimo

Hollensk Vörn.

Skýringar eftir Friðrik Ólafsson

Fjöltefli Rossolimos

Í febrúarheftinu var minnzt á tvö fyrstu fjöltefli Rossolimos hérlendis. Kemur hér framhald þessa fjöltefla annáls.

8. febrúar tefldi Rossolimo fjöltefli við 28 menn úr Bifreiðastjórafélaginu Hreyfli. Úrslit urðu þau, að Rossolimo vann 19 skákir, gerði 9 jafntefli og tapaði engri skák.

10. febrúar tefldi Rossolimo síðan fjöltefli í Menntaskólanum Við 23 nemendur. Vann hann 19, gerði 2 jafntefli og tapaði 2, fyrir þeim Úlfari Kristmundssyni og Guðmundi Árnasyni.

Næst tefldi Rossolimo fjöltefli 17. febrúar og þá tvö samdægurs. Hið fyrra tefldi hann í Háskólanum við 29 manns, vann 14, 10 jafntefli, tapaði 5. Tapaði hann fyrir þeim Árna Ísberg, Ásgeiri Þór Ásgeirssyni, Sigurjóni Jóhannessyni, Þórði Jörundssyni og Sigurkarli Stefánssyni.

Hið síðara tefldi hann við 24 menn úr Vörubílstjórafélaginu Þrótti og Taflfélagi Alþýðu. Vann hann 19, gerði 3 jafntefli og tapaði 2. Þeir, sem unnu hann, voru þeir Guðmundur Jónasson (Þr.) og Dómald Ásmundsson (T. A.).

Þessu næst bar Fransmaðurinn niður á Bridgefélaginu, þar sem hann tefldi við 31 mann, laugardaginn 24. febrúar. Þar vann hann 18, gerði 10 jafntefli og tapaði 3. Árni Þorvaldsson, Magnús Jónasson og Ingi Eyvinds unnu Rossolimo.

Daginn eftir, 25. febrúar, brá hann sér síðan til Hafnarfjarðar í boði Taflfélagsins þar og tefldi fjöltefli á 31 borði. Vann hann 24, gerði 6 jafntefli, en tapaði einni skák, fyrir Guðmundi Þorlákssyni.

Næst var fyrirhugað, að Rossolimo héldi austur fyrir heiði til að treysta styrkleika Selfyssinga. Hélt hann af stað 22. febrúar og hafði Guðmund S. Guðmundsson að fylgdarmanni. En er þeir voru skammt á veg komnir gerði hríð mikla með frosti og fannkomu, og máttu þeir eigi komast leiðar sinnar, en urðu að snúa til baka, er þeir voru komnir í Krísuvík suður. Gerði Rossolimo ekki fleiri tilraunir til Austurvíkingar.

26. febrúar flaug Rossolimo til Akureyrar og dvaldist þar um Vikutíma í boði Skákfélags Akureyrar. Þar ,tefldi hann m. a. þrjú fjöltefli og sýndi auk þess skákir. Í fyrsta fjölteflinu átti hann við 47 menn, og fóru leikar svo, að hann vann 27, gerði 15 jafntefli og tapaði 5. Þeir, sem unnu hann, voru þessir: Anton Magnússon, Agnar Jörundsson, Daníel Guðnason, Snorri Rögnvaldsson og Ólafur Stefánsson.

Næst tefldi hann klukkufjöltefli á Akureyri við 10 af sterkustu skákmönnum staðarins. Vann hann þrjár skákir, gerði fimm jafntefli og tapaði tveimur, fyrir Júlíusi Bogasyni og Snorra Rögnvaldssyni (aft- ur).

Að síðustu tefldi Rossolimo þar fjöltefli við 25 manns. Fóru leikar svo, að hann vann 13, gerði 8 jafntefli og tapaði 4. Þeir, sem unnu Rossolimo, voru Þorsteinn Svanlaugsson, Sigurður Halldórsson, Bragi Sigurgeirsson og Steinþór Helgason.

Þetta var síðasta fjöltefli Rossolimos hér á landi. Alls telzt okkur til, að hann hafi teflt 285 skákir í fjölteflum hérlendis, þar af unnið 178, gert 79 jafntefli og tapað 28, og hlotið þannig ca. 75% vinn- inga.

Rossolimo kveður Ísland

Rossolimo kom úr Akureyrarför sinni seinna en hann hafði ráðgert, þar sem ferðir lágu niðri sökum slæmrar veðráttu.

Kom hann til Reykjavíkur mánudaginn 5. marz, en það var daginn áður en hann skyldi leggja af stað heimleiðis. Var því eigi nægur tími fyrir hendi til þess að hann gæti setið kveðjusamsæti, sem fyrirhugað var að halda honum og þar sem um leið skyldi fara fram  verðlaunaafhending fyrir mótið.

Hins vegar voru Rossolimo afhent verðlaun sín að kvöldi þessa sama dags, en það voru 600 íslenzkar krónur. Auk þess var Rossolimo greitt umsamið kaup fyrir ferð sína hingað, auk ferðakostnaðar, en þær greiðslur, auk uppihalds hans hér, innti Taflfélag Reykjavíkur af hendi.

Daginn eftir flaug Rossolimo síðan áleiðis heim.  Íslenzkir skákmenn hafa mikið lært af dvöl hins franska listamanns hér. Hann hefur kennt þeim dýpri skilning og þekkingu á takmörkunum sínum og þannig veitt þeim betri aðstöðu til að útvíkka þær. Jafnfram gaf hann skákmönnum okkar tilefni til að beita  allri sinni ýtrustu getu við skákborðið, og veitti þeim glöggt yfirlit yfir þanþol hæfileika sinna. Í fáum orðum sagt veitti hann þeim alhliða fræðslu og þjálfun á sviði skáklistarinnar, sem tæpast verður ofmetin.

Framkoma hans öll hér var fyllilega samboðin víðsýnum og samvizkusömum listfrömuði, prúðmannleg og látlaus og vakti ósjálfrátt traust á manninum. Slíka gesti sem hann er gott að hýsa.

Við brottför sína lét Rossolimo þess getið, að hann óskaði einskis framar en að fá tækifæri til að heimsækja Ísland fljótlega aftur, helzt á næsta ári. Hann rómaði mjög allar móttökur hér og lýsti aðdáun sinni á menningu þjóðarinnar og sérílagi á þeim almenna skákáhuga, er hér væri fyrir hendi.

Hraðskákmót

Mánudaginn 19. febrúar og þriðjudaginn 20. febrúar fór fram hraðskákmót að tilhlutan Taflfélags Reykjavíkur, og var Rossolimo einn þátttkaenda.

Þátttakendur voru alls 54. Fyrri daginn voru tefldar undanrásir. Skipt var í sex riðla, 9 menn í hverjum, og fóru síðan tveir í úrslit úr hverjum riðli eða alls 12.

Úrslit urðu þau, að efstir urðu þeir Árni Snævarr og  Guðjón M. Sigurðsson með 10 vinninga hvor (glæsileg útkoma!), 3. Rossolimo 7 vinninga, 4.-5. Guðmundur Ágústsson og Guðmundur S. Guðmundsson 6 1/2 v., 6. Þórir Ólafsson 5 1/2 v. 7. Sveinn Kristinsson 4 1/2 v.  8.-9. Gunnar Gunnarsson og Benóný Benediktsson 4 v. 10.-11. Jón Pálsson og Gunnar Ólafsson 3 1/2 v. 12. Kristján Sylveríusson 1 v.. Rossolimo reyndist þannig ekki bera af okkar beztu hraðskákmönnum í þessari grein Skáklistarinnar.

1951: Afmælismót TR - Rossolimo-mótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 67%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu