1952: Skákþing Íslands

Æsispennandi Íslandsmót: Friðrik og Lárus Johnsen efstir

SKÁKRITIÐ 3.-4. tbl. 1952.

Landsliðskeppni Íslands fór fram 28. marz til 20. apríl sl. Þátttakendur voru 16, eða aðeins röskur helmingur þeirra, er réttindi höfðu til þátttöku samkvæmt samþykkt þeirri, er gerð var þar að lútandi á síðasta aðalfundi Skáksambandsins.

Þarna vantaði líka marga afar sterka meistara, og er slíkt leitt, þegar velja skal menn til Ólympíukeppni, eins og hér var gert. Nægir að nefna t. d. þá Guðmund S. Guðmundsson, Ásmund Ásgeirsson og Guðmund Arnlaugsson til að finna þessum orðum stað. En þrátt fyrir það var þetta þó eitt af fjölsetnustu og sterkustu mótum, sem hér hafa verið haldin.

Friðrik Ólafsson náði forustunni eftir 4 umferðir og hélt henni til loka mótsins. Töldu menn um hríð, að hann mundi sigra með nokkrum vinningsmun, en í 8. umferð lék hann sér í mát í tímahraki gegn Sigurgeiri Gíslasyni, og við það náðu þeir  Lárus, Sigurgeir og Árni honum að vinningum.

Í 9. og síðustu umferð unnu þeir svo báðir, Friðrik og Lárus, og urðu þannig jafnir að vinningum með 6,5 vinning hvor, en Friðrik er þó einn efstur samkvæmt kerfinu.

Árni gerði jafntefli og varð þannig 3. með 6 vinninga, en Sigurgeir tapaði og við það náðu þeir honum Eggert Gilfer og Guðjón M. Sigurðsson, hlutu allir 5 1/2 vinning.

Næstir með 5 vinninga komu þeir Baldur Möller og Steingrímur Guðmundsson og skipa þeir 7. og 8. sætið í landsliði. Að öðru leyti vísast til meðfylgjandi töflu um vinninga einstakra manna og önnur úrslit.

Enda þótt Friðrik yrði ótvírætt í efsta sæti samkvæmt kerfinu, ákvað mótstjórinn, að þeir Lárus skyldu tefla einvígi um efsta sætið í landsliði og Íslandsmeistaratitilinn.

Hefur þessi ákvörðun sjálfsagt verið tekin með hliðsjón af því, að Lárus var handhafi titilisins síðastliðið ár og þess vegna þótt ótilhlýðilegt, að hann tapaði titlinum að jöfnum vinningum. Munu þeir tefla 4 skákir, og verði þeir þá jafnir, tvær í viðbót og síðan áfram, unz annar hvor vinnur, verði þeir jafnir að sex tefldum.

Einvígið hófst 23. apríl sl. og lauk fyrstu skákinni með jafntefli, en fleiri höfðu eigi verið tefldar, er blaðið fór í prentun.

Landsliðið 1952 verður samkvæmt ofansögðu þannig skipað:

  1. Lárus eða Friðrik.
  2. Friðrik eða Lárus.
  3. Árni Snævarr.
  4. Sigurgeir Gíslason.
  5. Eggert Gilfer.
  6. Guðjón M. Sigurðsson.
  7. Baldur Möller.
  8. Guðmundsson.

Ráðgert var, þegar mótið hófst, að 5 efstu menn tefldu fyrir Íslands hönd í Helsingfors í sumar, og verður væntanlega ekki hvikað frá þeirri ráðagerð héðan af með góðri samvizku gagnvart hlutaðeigandi mönnum.

Hitt er svo álitamál, hvort Monradskerfi gefur eins glögga mynd af  styrkleika keppenda eins og  hið venjulega kerfi. Það þyrftu  þeir vendilega að athuga, sem standa að því, að þetta kerfi sé viðhaft á mikilvægum úrtökumótum.

Frá landsliðskeppninni.

Skák nr. 120.
Hvítt: Óli Valdimarsson.
Svart: Friðrik Ólafsson.

Kóngsindversk vörn.

Skýringar eftir Friðrik Ólafsson

1952: Skákþing Íslands

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Nafn 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 Vinn. Prósenta
1 Friðrik Ólafsson x ½ ½ 0 1 ½ 1 1 1 1 6,5 72%
2 Lárus Johnsen ½ x 1 1 1 ½ ½ 1 ½ ½ 6,5 72%
3 Árni Snævarr ½ x 1 ½ 1 ½ ½ ½ 1 ½ 6 67%
4 Sigurgeir Gíslason 1 0 0 x ½ 1 ½ 1 ½ 1 5,5 61%
5 Eggert Gilfer 0 0 ½ ½ x ½ 1 1 1 1 5,5 61%
6 Guðjón M. Sigurðsson ½ 0 0 ½ x 1 1 1 1 ½ 5,5 61%
7 Baldur Möller ½ ½ 0 x 0 0 1 1 1 1 5 56%
8 Steingrímur Guðmundsson ½ 0 0 0 1 x ½ 1 1 1 5 56%
9 Óli Valdimarsson 0 ½ ½ ½ 0 0 x 1 1 1 4,5 50%
10 Jón Einarsson 0 0 1 ½ x 0 1 0 1 1 4,5 50%
11 Guðmundur Ágústsson ½ 0 0 0 x ½ ½ ½ 1 1 4 44%
12 Benóný Benediktsson 0 ½ ½ 0 0 1 ½ x 1 0 3,5 39%
13 Bjarni Magnússon ½ 0 0 0 0 ½ x 1 ½ 1 3,5 39%
14 Hafsteinn Gíslason 0 ½ 0 1 ½ 0 0 x ½ 1 3,5 39%
15 Sturla Pétursson 0 0 0 0 0 1 ½ ½ x ½ 2,5 28%
16 Haukur Sveinsson 0 0 0 0 0 0 0 0 ½ x 0,5 6%
Vinningshlutall 72%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu