1953-54: 29. alþjóðamótið í Hastings

Alexander og Bronstein efstir í Hastings

Prýðileg frammistaða Friðriks Ólafssonar

Hið árlega jólaskákmót i Hastings var haldið dagana 30. desember til 9. janúar sl. Þátttakendur í efsta flokki voru tíu, eins og venjulega, frá sex þjóðum. Það sem einkum setti svip á mótið, var þátttaka þeirra Bronstein og Tolusj frá Sovétríkjunum, en Rússar hafa ekki átt fulltrúa á þessu móti síðan fyrir heimsstyrjöldina síðari. Er þetta því tvímælalaust eitt mesta mót, sem háð hefur verið í Hastings.

Úrslitin urðu þau, að efstir urðu brezki skákmeistarinn C. H. O’D. Alexander og stórmeistarinn Bronstein, eftir harða og skemmtilega baráttu, hlutu 6 1/2 v1953-4 Hastings - mynd. hvor.  Þessi frábæri árangur Alexanders kom nokkuð á óvart, en hann tefldi mjög vel og tapaði engri skák. Mikla athygli vakti sigur hans yfir þeim Bronstein og Tolusj. Skák hans við Bronstein varð 120 leikir alls og fór fimm sinnum í bið! Fórnaði Bronstein peði í byrjun, en tókst aldrei að fá verulega sókn fyrir það. Snerist skákin smám saman Alexander í vil, sem tókst að vinna annað peð, og gafst Bronstein upp í 120. leik.

Þegar ein umferð var eftir, voru þeir Alexander og Bronstein efstir með 5 1/2 V. Sá fyrrnefndi tefldi með svörtu gegn Tolusj sem tefldi byrjunina mjög veikt, og náði Alexander sterkri sókn, sem Tolusj fékk ekki staðist, og gafst hann upp í 28. leik eftir að hafa tapað manni.

Bronstein tefldi með hvítu gegn Teschner og gekk frekar illa. Missti hann peð, og þegar skákin fór í bið, virtist hún töpuð. En með ótrúlegri hörku tókst Bronstein smám saman að ná yfirtökunum, og þótt hann missti annað peð, var staða svarts þá svo aðþrengd orðin, að hann mátti raunverulega engu leika, án þess að tapa við það liði, og gafst Teschner upp í 68. leik, er mát eða drottningartap var óumflýjanlegt.

Í þriðja sæti er hinn kunni Belgíski meistari O’Kelly, með 5 1/2 vinning. Hann byrjaði frekar illa, en náði sér á strik í síðari hluta mótsins.

Í. 4.-7. sæti eru þeir Friðrik Ólafsson, A. Matanovic, A. Tolusj og R. Teschner, allir með 4 1/2 vinning. Er auðséð að baráttan um 4. sætið hefur verið hörð.

Árangur Friðriks má teljast með ágætum. Hann tapaði fyrir Tolusj í fyrstu umferð. Náði hann ágætri stöðu og átti kost á glæsilegri fórn, er hefði fært honum öruggan sigur. En hann var í miklu tímahraki, og lagði ekki út í fórnina, sem engin tök voru á að kryfja til mergjar. Féll hann á tíma í 34. leik, en þá var staðan orðin vonlaus. Hinn glæsilegi sigur hans yfir Wade í síðustu umferð, vakti mikla athygli og lét Alexander svo um mælt, að það væri fallegasta skák mótsins. Matanovic tefldi mjög varlega, og ekki af þeirri hörku, sem færði honum sigur á sterku alþjóðaskákmóti í Júgóslavíu í fyrra.

Árangur Tolusj kom mjög á óvart, þar eð flestir álitu hann öruggan a. m. k. um 2. sætið. Fór hann vel af stað, var í 3.-4. sæti eftir 7. umferð, en tapaði báðum skákunum, sem eftir voru.
Teschner byrjaði einnig ágætlega, var í 3.-4. sæti eftir 6. umferð, með 3 1/2 v. En í síðustu umferðunum hlaut hann aðeins einn vinning.

Önnur úrslit, sjá töflu.

1953: 29. alþjóðamótið í Hastings

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1953-4 Hastings - tafla

Vinningshlutall 50%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu
Merki: