1953: Skákþing Íslands

Skákþing Íslands 1953

Friðrik Ólafsson efstur í Landsliðsflokki

 

Skákþing Íslands 1953 hófst 22. marz og lauk laust eftir 20. apríl. Þátttakendur voru 40, 10 í landsliðsflokki, 12 í meistaraflokki, 9 í fyrsta flokki og 9 í öðrum flokki. Í síðasta blaði var getið keppenda í landsliðsflokki, og í þessu blaði talar taflan máli tölvísindanna um menn og vinninga. Auk þess verður nú stuttlega vikið að keppninni nokkrum orðum.

Friðrik Ólafsssyni tókst að verja meistaratitil sinn frá því í fyrra, og raunar sigraði hann nú á einsýnni hátt en þá, með því að nú þurfti hann ekki að heyja tvísýnt einvígi við neinn keppinauta sinna að mótinu loknu. Hins vegar sýndi Friðrik enga þá yfirburði, sem sneyddu keppni þessa tvísýnu og spenningi. Úrslitin voru tvísýn allt til loka mótsins, og það var ekki fyr en í síðustu umferð, sem Friðrik tryggði sér sigurinn. Er það ómetanlegur kostur frá sjónarmiði áhugasamra áhorfenda, að spenningurinn haldist sem lengst á skákmótum. Hins vegar, er sá spenningur miður hollt taugalyf keppendum þeim, sem fremst standa í eldlínunni, og getur hann oft leitt til óvæntra úrslita í mikilvægum skákum. En það er önnur saga.

Friðrik sjálfur segist ekki hafa teflt sérlega vel á þessu móti, en í því sambandi skyldum vér minnast þess, að lítillæti er aðalsmerki hins sanna meistara, og má ekki taka það of bókstaflega. Auðvitað tefldi Friðrik vel, ella hefði hann ekki unnið keppnina. Hitt er svo matsatriði, hvort hann hefur áður teflt betur í einstökum tilfellum, og skal ekki dómur lagður á það hér. Friðrik er vaxandi skákmaður, þótt framför hans sé nú ekki eins ör og 2-3 síðustu árin. Framför manna verður almennt hægari eftir því sem hæfni þeirra eykst, og liggja til þess eðlilegar ástæður, sem óþarft er að fjölyrða um. Auk þess getur, Friðrik nú ekki lengur sótt reynslu og æfingu til sér sterkari innlendra keppinauta. Landið er orðið of lítið fyrir hann í þeim skilningi. Þetta hvort tveggja verðum við að hafa í huga, ef við ætlum að leggja sanngjarnan dóm á hinn unga „skákkóng“ okkar með tilliti til fórtíðar hans. Og jafnframt ætti það að vera okkur metnaðarmál, að hann fái sem oftast að reyna sig við skákkappa annarra þjóða, svo að hinn vöxtulegi frjóangi, sem í honum býr, blikni ekki eða trénist af völdum þröngs og fjörefnasnauðs umhverfis. Væntanlega gefst Friðrik þegar á þessu sumri kostur á að bæta við orðstír sinn og reynslu á erlendum vettvangi.

Skákritið vill svo færa Friðrik hamingjuóskir í tilefni af sigri hans og jafnframt láta í ljós þá trú, að með Friðrik og öðrum efnilegustu yngri skákmönnum okkar, sé að vaxa upp kynslóð, sem ber merki hinnar göfugu skáklistar enn hærra en því hefur áður verið lyft hér á landi.
Næstir Friðrik, aðeins hálfum vinning neðar, komu þeir Guðjón M. Sigurðsson, Guðmundur S. Guð- mundsson og Sveinn Kristinsson, en ásamt Guðmundi Ágústssyni, sem varð 5., veittu þeir Friðrik einna harðasta keppni. Það er óþarfi að ræða hér um hvern og einni þessara skákmanna, enda hafa því efni oftlega verið gerð skil hér í blaðinu áður.

— Guðmundarnir heyra til kynslóð skákmanna, sem ætti nú að standa með hvað mestum blóma, en hefur enzt verr en mátt hefði vænta. Er það vissulega undrunarefni, hve fátt við eigum góðra skákmanna milli þrítugs og fertugs. Af toppmönnum eru það aðeins Baldur Möller og Guðmundarnir tveir. Þetta er því einkennilegra, sem þessir þrír risar sýna gleggra en nokkuð annað, að jarðvegur sá, er þeir eru úr sprottnir, hefur alls ekki verið snauður að gróðrarmagni. Er því líklegt, að orsaka þessa fjölgresisskorts sé meir að leita meðal hinna ytri aðstæðna. Þeir Guðjón M. Sigurðsson og Sveinn Kristinsson hafa sýnt bæði fyrr og nú, að þá brestur margt fremur en hæfileika til að tefla, og eru þeir þegar, orðnir fjölhliða skákmenn. Munu þeir sennilega sækja manna fastast að Íslandsmeistaratitlinum næstu árin, og verður gæfan þeim ekki fylgispök, ef hvorugum tekst að ná tangarhaldi á honum um sinn.

Eggert Gilfer, sem hlaut nákvæmlega 50% vinninga, má vel við una, miðað við sinn aldur, en sama verður eigi sagt um Baldur Möller, sem hlaut hálfum vinningi minna. Tefldi hann bersýnilega ekki af sama eldmóði og léttleika sem oft áður, hvað sem valdið hefur. Þrátt fyrir þetta er þó engin ástæða til að ætla, að Baldri hafi hrakað í skákinni, og mun hér fremur um stundarfyrirbæri að ræða. Tækni hans er sú hin sama og eiginleikarnir þeir sömu; aðeins virtist skorta gneistann til að tendra þá til sigursæls samstarfs. Þyrfti því engum að koma á óvart, þótt Baldur sýndi þegar á næsta móti, að honum er enn trúandi til að vinna mikil afrek á skákborðinu.

Í þremur neðstu sætunum lentu þrír fulltrúar þriggja kynslóða: þeir Ingi, Óli og Steingrímur, og í fullu samræmi við lögmál framþróunarinnar, skiptu þeir með sér sætum eftir aldursröð, reiknaðri frá þeim yngsta til hins elzta, og er ástæðulaust að gera athugasemdir við það.

 

1953_Skakthing-Islands_tafla

 

 

Í meistaraflokki varð Jón Pálsson hlutskarpastur og fær því réttindi til þátttöku í landsliðsflokki á næsta Skákþingi Íslands. Er það ekki vonum fyrr, að Jón nær þessum árangri, því að hann hefur um langt skeið haft mikla leikni til að bera í skák. Þeir Birgir og Þórður Jörundsson, er jafnir urðu í 2.-3. sæti, munu væntanlega heyja einvígi um landsliðsréttindin. Er erfitt að spá um úrslit þeirrar viðureignar, því að þeir eru báðir öruggir skákmenn og mjög líkir að styrkleika. Birgir var eini keppandinn í meistaraflokki, sem engri skák tapaði. Frammistaða Margeirs Sigurjónssonar verður að teljast ágæt, miðað við það, að hann er, nýliði í meistaraflokki, og framför Gunnars Ólafssonar frá síðasta Skákþingi Reykjavíkur er augljós. Maður hefði getað vænzt betri frammistöðu bæði af Hauk og Þórði Þórðarsyni, en þeir eru þó báðir vænlegri til mikilla afreka í einstökum skákum en glæsilegs heildarárangurs á skákmótum. Ingimundur Guðmundsson er sýnilega að verða áhrifamaður í meistaraflokki, og sonur hans, Ágúst, sem er algjör nýliði í þeim flokki, vakti mikla athygli með því að sigra tvo af þremur efstu mönnunum. (Sjá töflu).

 

1953_Skakthing-Islands_tafla_meistaraflokkur

 

 

í I. flokki urðu 3 jafnir í efsta sæti, með 6 vinninga hver. Það voru þeir Bjarni Linnet, Dómald Ásmundsson og Karl Þorleifsson. Munu þeir verða að tefla til úrslita um meistaraflokksréttindin. Að öðru leyti fóru leikar svo í 1. flokki:

4. Jóhannes Lárusson 4 ½ v., 5. Guðmundur Ársælsson 4, 6. Knud Kaaber 3 ½ , 7. – 8. Pétur Þorvaldsson 2 ½ , 7. – 8. Eiríkur Marelsson 2 ½ og 9-. Halldór Jónasson 1 vinning.

Í öðrum flokki urðu jafnir, efstir, Grétar Jónsson og Jón Guðmundsson, með 6 ½ vinning hver, og flytjast þeir báðir upp í 1. flokk. Má mikils af þeim vænta í framtíðinni.

Önnur úrslit í 2. flokki:

3. Guðmundur Magnússon 6 v., 4. – 5. Óli Erlingsson 4, 4. – 5. Þórketill Sigurðsson 4, 6. – 7 . Snorri Jónasson 3, 6. – 7. Björn Eyþórsson 3, 8.- 9. Alfred Nielsen 1 ½ , 8 – 9. Þorsteinn Friðjónsson 1 ½ vinning.
Mótið fór fram ýmist að Þórskaffi eða samkomusal Mjólkurstöðvarinnar og var með köflum allvel sótt af áhorfendum. Skákstjóri var Arinbjörn Guðmundsson.

Að lokum má víkja að niðurröðun landsliðsins í ár. Hún liggur ljós fyrir, að öðru leyti en því, að eftir er að útkljá, hvernig skipta beri sætum nr. 3 og 4 með þeim Guðmundi S. Guðmundssyni og Sveini. Mun ekki enn afráðið, hvort þeir heyja einvígi eða málið verður leyst á einhvern annan viðunandi hátt. Guðjón hlýtur hins vegar 2. sætið, þar sem hann var sá eini af þremenningunum, sem átti sæti í síðasta landsliði.

Landslið Íslands 1953 verður því skipað á eftirfarandi hátt:

1. Friðrik Ólafsson.
2. Guðjón M. Sigurðsson.
3. Guðmundur S. Guðmundsson eða Sveinn Kristinsson.
4. Sveinn Kristinsson eða Guðmundur S. Guðmundsson.
5. Guðmundur Ágústsson.
6. Eggert Gilfer.
7. Baldur Möller.
8. Ingi R. Jóhannsson.
9. Óli Valdimarsson.
10. Steingrímur Guðmundsson.

1953: Skákþing Íslands

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Nafn 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Vinn. Prósenta
1 Friðrik Ólafsson x 0 ½ ½ 1 1 1 ½ 1 1 6,5 72%
2 Sveinn Kristinsson 1 x ½ ½ 1 ½ ½ ½ ½ 1 6 67%
3 Guðmundur S. Guðmundsson ½ ½ x ½ ½ ½ ½ 1 1 1 6 67%
4 Guðjón M. Sigurðsson ½ ½ ½ x 0 ½ 1 1 1 1 6 67%
5 Guðmundur Ágústsson 0 0 ½ 1 x ½ ½ 1 1 1 5,5 61%
6 Eggert Gilfer 0 ½ ½ ½ ½ x ½ 1 0 1 4,5 50%
7 Baldur Möller 0 ½ ½ 0 ½ ½ x ½ 1 ½ 4 44%
8 Ingi R. Jóhannsson ½ ½ 0 0 0 0 ½ x 1 ½ 3 33%
9 Óli Valdimarsson 0 ½ 0 0 0 1 0 0 x ½ 2 22%
10 Steingrímur Guðmundsson 0 0 0 0 0 0 ½ ½ ½ x 1,5 17%
Vinningshlutall 72%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu