1955 – 56: 31. alþjóðamótið í Hastings

Íslenzkur stórsigur á erlendum vettvangi:

Kortsnoj og Friðrik efstir í Hastings

Hið árlega alþjóðaskákmót í Hastings var háð daganna 28. desember til 7. janúar s.l. Keppendur í efsta flokku voru sem kunnugt er alls tíu, og meðal þeirra tveir velþekktir stórmeistarar, þeir Ivkov frá Júgóslavíu og Taimanov frá Sovétríkjunum.

Ísland átti þarna einnig fulltrúa, Friðrik Ólafsson, en með honum fór til aðstoðar og sem fréttaritari, Ingi R. Jóhannsson, Skákmeistari Reykjavíkur.

Mótinu lauk sem kunnugt er með sigri þeirra Friðriks Ólafssonar og rússneska meistarans V. Kortsnoj, en þeir hlutu 7 vinninga hvor, töpuðu engri skák.

Þessi glæsilegi sigur Friðriks vakti að vonum mikla athygli erlendis og mikinn fögnuð hér heima, þar sem þetta er vafalaust stærsti skáksigur sem nokkur Íslendingur hefur unnið á erlendum vettvangi. Hefur Friðrik nú skipað sér í röð fremstu skákmanna heimsins og má áreiðanlega vænta mikils af honum í framtíðinni. Sýndi hann mikið öryggi í skákum sínum og var aðeins í einni skák í taphættu, fyrir Penrose, en tókst þó að halda jöfnu.

Hér er eigi talin þörf á að rekja hverja umferð sérstaklega, þar eð það hefur þegar verið gert með ágætum af Inga R. Jóhannssyni í dagblöðum bæjarins. — Aðeins skal lauslega minnzt á gang mótsins.

Friðrik tók forustuna þegar í byrjun mótsins, ásamt þeim Kortsnoj og Darga, en var í 2. sæti eftir 5. umferðir. Eftir 6. umferð var hann aftur kominn í efsta sætið ásamt Kortsnoj, og héldu þeir því til loka mótsins.

Rússneski meistarinn Kortsnoj kom nokkuð á óvart með sigri sínum, en hin örugga taflmennska hans sannaði greinilega að hann var vel að sigrinum kominn, enda var hann aldrei í taphættu. Í síðustu umferðunum var almennt búizt við hreinum sigri hans, en brezki meistarinn Fuller stöðvaði sigurgöngu hans með jafntefli í síðustu umferðinni, þrátt fyrir ítrekaðar vinningstilraunir af hálfu Kortsnoj.

Í 3. sæti er hinn kunni stórmeistari Ivkov, með 61/2 vinning. Margir spáðu honum sigri í byrjun mótsins, sem ekki er óeðlilegt, með hliðsjón af skáksigrum hans í tveim sterkum alþjóðamótum í Argentínu í fyrra. — Ivkov fór heldur rólega af stað, gerði tvö jafntefli, en fékk sitt eina tap í 4. umferð, fyrir Kortsnoj. En Ivkov sýndi geysilega keppnishörku og sigraði í næstu fjórum skákum, þar á meðal sjálfan Taimanov, en í síðustu umferð varð hann að láta sér nægja jafntefli við Friðrik og lenti við það í 3. sæti.

Í 4. sæti kemur svo stórmeistarinn Taimanov, sem líklegastur var talinn til sigurs í byrjun mótsins. En í fyrstu umferðinni beið hann ósigur fyrir Friðriki, eftir harða og fjöruga viðureign. Hann náði sér þó aftur á strik og hlaut 21/2 v. í næstu 3 umferðum, en svo kom hið örlagaríka tap hans fyrir Ivkov í 5. umferð, sem þar með hratt öllum sigurmöguleikum hans. Taimanov sýndi þó frábæra keppnishörku og lagði alla andstæðinga sína, sem eftir voru, að velli, að undanskildum landa sínum, Kortsnoj.

Hinn ungi Þýzkalandsmeistari Darga, byrjaði mjög vel og var í efsta sæti ásamt Kortsnoj eftir 5. umferð. En eftir það sneri skákgyðjan algjörlega við honum bakinu, og í síðustu 4 skákunum náði hann aðeins einu jafntefli og hafnaði í 5. sæti.

Önnur úrslit, sjá töflu.

Þeir félagar, Friðrik og Ingi, komu til Reykjavíkur með flugvélinni Sólfaxa, hinn 10. janúar s.l. Í flugafgreiðslunni var samankominn mikill fjöldi fólks til að fagna þeim. — Við það tækiværi fluttu ræður þeir Elís Ó. Guðmundsson, f.h. Skáksambandsins, og borgarstjórinn í Reykjavík, Gunnar Thorodssen, sem afhenti Friðriki veglega gjöf frá stjórn Reykjavíkurbæjar, — tíu þúsund krónur, en Friðrik þakkaði með nokkrum orðum.

1955: 31. alþjóðamótið í Hastings

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Nafn Land 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Vinningar Prósenta
1 Viktor Korchnoi Sovétríkin x ½ 1 ½ 1 ½ ½ 1 1 1 7 78%
2 Friðrik Ólafsson Ísland ½ x ½ 1 ½ 1 1 1 ½ 1 7 78%
3 Borislav Ivkov Júgóslavía 0 ½ x 1 1 1 ½ 1 1 ½ 6,5 72%
4 Mark Taimanov Sovétríkin ½ 0 0 x 1 1 1 1 1 ½ 6 67%
5 Klaus Darga Þýskaland 0 ½ 0 0 x 1 ½ ½ 1 1 4,5 50%
6 Raaphi Persitz Ísrael ½ 0 0 0 0 x ½ 1 1 ½ 3,5 39%
7 John Fuller England ½ 0 ½ 0 ½ ½ x 0 ½ 1 3,5 39%
8 Jesus Diez del Corral Spánn 0 0 0 0 ½ 0 1 x ½ 1 3 33%
9 Jonathan Penrose England 0 ½ 0 0 0 0 ½ ½ x 1 2,5 28%
10 Harry Golombek England 0 0 ½ ½ 0 ½ 0 0 0 x 1,5 17%
Vinningshlutall 78%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu
Merki: