1956: XII. Ólympíuskákmótið í Moskvu

 Sovétríkin sigurvegari í Ólympíumótinu

Austurríki efst í B-riðli. – Ísland í 2. sæti.

 

Ólympíumótið, sem haldið er annað hvert ár, var að þessu sinni haldið í Moskvu. Þátttökuþjóðir voru 34 talsins og sendi hver þjóð átta manna flokk. – Íslenzka sveitin var skipuð þeim Friðriki Olafssyni, Ingi R. Jóhannssyni, Baldri Möller, Freysteini Þorbergssyni, Sigurgeiri Gíslasyni og Arinbirni Guðmundssyni. Fararstjóri og fréttamaður var Guðmundur Arnlaugsson, en Júlíusi Bogasyni, skákmeistara Norðlendinga, var boðið sem áhorfanda.

Til Moskvu voru þeir síðast nefndu komnir þann 31. ágúst, en mótið hófst 1. september með miklu skrölti og lýsingum af hálfu blaðaljósmyndara og fréttamanna.

Íslenzka sveitin dró sér sæti í C-riðli, og háði þar harðvítuga baráttu við Vestur-Þýzkaland og England um 2.-4. sætið, en eins og kunnugt er, voru Argentínumenn svo að segja aldrei í hættu með fyrsta sætið. – Með hinu óvænta tapi okkar fyrir Chile og hinum nauma sigri yfir Finnum, tókst Þýzkalandi og Englandi að tryggja sér 2. og 3. sætið. – Við urðum því að láta okkur nægja að tefla í B-riðli úrslitakeppninnar, sem að sjálfsögðu gaf okkur ekki eins mikil tækifæri og A- riðill úrslitakeppninnar hefði gefið okkur.

Keppnin í A-riðli úrslita var nokkuð jöfn framan af, og leiddu Rússar, Júgóslavar og Ungverjar eftir fimm umferðir. Þegar hér var komið sögu, tók Sovétskáksveitin að leggjast þyngra á árarnar og sigraði hún örugglega eins og taflan sýnir okkur.

Í B-riðli úrslitakeppninnar var baráttan um efsta sætið mun jafnari og tvísýnni fram á síðustu stundu. Megin baráttan stóð milli Íslands, Svíþjóðar og Austurríkis. Þeir síðast nefndu byrjuðu ákaflega illa, með því að tapa 0 – 4 gegn Svíum, en eftir það töpuðu þeir engum leik og sóttu stöðugt á, unz þeir sigruðu Hollendinga með 3 1/2 : 1/2 og tryggðu sér þannig sigurinn.

Aðeins einum vinning á eftir Austurríki koma svo Íslendingar, og hálfum vinning á eftir þeim varð sænska sveitin.

Í heild getum við verið ánægðir með árangurinn, ef tekið er tillit til hversu fámenn þjóð Íslendingar eru.

Af einstaklingum stóð Bent Larsen sig bezt, og vakti frammistaða hans heimsathygli, en honum tókst að verða efstur á 1. borði, á undan heimsmeistaranum Botvinnik og stórmeisturunum Szabó, Najdorf og Gligoric, svo nokkrir séu nefndir. – Þetta afrek veitti Larsen titilinn stórmeistari í skák, og hafa aðeins tveir aðrir ungir menn áður náð  þessu afreki, þeir Spassky (Sovétríkin) og Panno (Argentínu).

Af okkar mönnum náðu beztum árangri þeir Friðrik Ólafsson, Baldur Möller og Freysteinn Þorbergsson, en einnig stóð Arinbjörn sig mjög vel. Aftur á móti höfðu margir búist við betri frammistöðu af Íslandsmeistaranum Inga R. Jóhannssyni, og Hafnarfjarðarmeistaranum Sigurgeiri Gíslasyni, en þeir linuðu á sprettinum þegar líða tók á keppnina.

Öll framkvæmd mótsins og aðbúnaður keppenda var prýðilegur, enda ekkert til sparað af hálfu rússnesku skáksamtakanna. Keppendum var komið fyrir á beztu hótelum borgarinnar, og ekið til og frá skákstaðnum í sérstökum áætlunarbifreiðum. Til að auðvelda keppendum dvölina höfðu sveitirnar túlk sér til aðstoðar, og gerði það þeim kleift að afla sér upplýsinga um það markverðasta í borginni.

Menn sneru því ánægðir heim til sín eftir ánægjulega dvöl á rússneskri grund.

Ingi R. Jóhannsson.

1956: XII. Ólympíuskákmótið í Moskvu

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Ólympíumótið 1956: Riðlakeppni – Úrslit Friðriks

1956_Olympiumot_ridla_fridrik

Ólympíumótið 1956: Úrslitakeppni B – Úrslit Friðriks

1956_Olympiumot_urslit_fridrik

Ólympíumót: Öll mót Friðriks

1956_Olympiumot_oll-mot-Fridriks

Ólympíumótið 1956: Úrslit riðlakeppni

1956_Olympiumot_urslit-ridla

Ólympíumótið 1956: Úrslitakeppni B

1956_Olympiumot_urslit

Vinningshlutall 72%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu