1976: 38. alþjóðlega Hoogovens skákmótið

Frábær sigur Friðriks í Wijk aan Zee

Um síðustu áramót voru tvö ár liðin frá því Friðrik Ólafsson stórmeistari hóf taflmensku að nýju sem atvinnumaður, og þá eftir um það bil tíu ára fjarveru sem slíkur. Vissulega hafði hann tekið þátt í nokkrum skákmótum á tímabilinu, en þá algjörlega sem áhugamaður. Eftir að Friðrik hóf atvinnumannsferil sinn að nýju, hefur hann lagt aðaláherslu á að vinna upp það sem glatast hafði og tileinka sér þær nýjungar sem fram hafa komið á undanförnum árum. Þá hafa komið fram margir ungir og efnilegir stórmeistarar sem nauðsynlegt var að kynna sér eftir föngum. Á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan Friðrik hóf raust sína að nýju, hefur hann því eflaust litið á þátttöku sína á mótum meira sem athugun á eigin getu og þoli frekar en að gera hnitmiðaðar kröfur um afgerandi árangur. Það er heldur ekki vandalaust, fyrir mann eins og Friðrik, að koma fram á sjónarsviðið eftir svo langt hlé, vitandi af sínum frábæra árangri hér áður fyrr. Nægir þar að nefna, að hann var aðeins 24 ára gamall þegar hann tefldi í Kandidatamótinu 1959. Augljóst er að þegar slíkur maður kemur fram á sjónarsviðið bíður skákheimurinn spenntur eftir að sjá hvernig til tekst. Er skemmst að minnast allra þeirra bollalegginga, sem áttu sér stað hér heima, þegar fréttin um að Friðrik ætlaði að snúa aftur inn á slóðir atvinnumennskunnar í skák barst út.

Friðrik Ólafsson, stórmeistariÁ útmánuðum 1974 fór svo meistarinn til þátttöku á erlenda grund. Ekki var valið af verri endanum. Stórmeistaramótið í Las Palmas á Kanaríeyjum hafði orðið fyrir valinu, og íslendingar urðu þaulsætnari en ella við útvarpsviðtækin á fréttatímum. Brátt varð greinilegt að Friðrik hafði engu gleymt. Hann var snemma í eldlínunni og hélt sér þar út mótið. Árangurinn varð betri en nokkur hafði þorað að vona. Hann hafnaði í öðru sæti næstur á eftir júgóslavanum Ljubojevic, stórmeistara ungum að aldri, sem um þessar mundir er talinn einn sá allra efnilegasti og líklegasti til keppninnar um heimsmeistaratitilinn. Og margir frægir kappar urðu að horfa á bakið á Friðrik þegar upp var staðið frá þessari fyrstu keppni okkar manns sem atvinnumanns. Árangurinn var gómsætur og augljóst var að Friðrik hafði kveðið sér hljóðs að nýju. Skákheimurinn, sem svo lítið hafði heyrt um langt skeið af stóra snillingnum frá litla landinu norður við íshaf, stóð agndofa.

Ekki leið á löngu þar til næsta högg reið af. Friðrik hafði haldið áfram af mikilli elju að rifja upp og tileinka sér nýjungar í fræðunum, af enn meiri ákafa en áður, og þegar honum barst boð um að tefla á skákmóti sem stóri risinn í austri hélt í Tallin í Eistlandi, þá þáði hann það með þökkum og bjó sig til fararinnar, sem best var á kosið. Ekki var það mót af lakari endanum heldur. Nær allir þátttakendur stórmeistarar og þeirra á meðal nokkrir þeirra sterkustu í heiminum um það leyti.

Friðrik fór sér að engu óðslega í upphafi. Hann þreifaði fyrir sér og fimm fyrstu skákirnar urðu jafntefli. Hér heima voru menn farnir að undrast þetta háttarlag. Friðrik hafði ekki, svo munað væri, gert svona mörg jafntefli í upphafi móts. Hvað var að ske? Var hann hættur að geta unnið skák eða hvað? Spurningin lifði ekki lengi, því Friðrik gerði sér lítið fyrir og vann fimm næstu skákir og skaut sér þar með í fremstu sætin. Þegar síðasta umferð rann upp gat Friðrik náð efsta sæti með því að vinna sovéska stórmeistarann Gipslis. Hann reyndi og um tíma virtist svo sem það ætlaði að takast, en örlítil ónákvæmni sneri sigri í tap. Þrátt fyrir það var annað sætið tryggt, en nú náði Spassky honum og þeir urðu jafnir í öðru til þriðja sæti. Í mínum huga gerði Friðrik rétt í að reyna, að vinna þessa skák sem raunar var sú eina sem hann tapaði í mótinu, minnugur þess, að heimurinn man aðeins sigurvegarana þegar frá líður.

Þetta afrek var í rauninni stærra en mætir auganu við fyrstu sýn, vegna þess, að sumarið áður hafði Friðrik orðið að fá sérstaka meðferð vegna magasárs og hafði það haft veruleg áhrif á frammistöðu hans á olympíumótinu rétt áður. Með þessum árangri hafði Friðrik sem sé sýnt fram á að hann væri að mestu búinn að ná sér af þeim leiða kvilla.

Nú tók hann ekki þátt í skákmótum erlendis fyrr en vorið 1975 er hann hélt til Las Palmas að nýju. Þegar hér var komið sögu, var öllum skákheimi ljóst, að Friðrik var verðugur andstæðingur sem gott var að gera jafntefli við. Sannaðist þetta áþreifanlega á þessu móti, því nú hættu menn ekki í neina tvísýnu, heldur tefldu ótrauðir til jafnteflis við Friðrik. Þrátt fyrir hörkutaflmennsku og þá staðreynd að hann tapaði aðeins einni skák, þá hafnaði hann í 5.-6. sæti ásamt Hort, en á eftir ekki lakari skákmeisturum en Ljubojevic, sem sigraði með 11 V., og Andersson, Mecking og Tal, sem urðu í 2.-4. sæti með 10 vinninga. Friðrik og Hort hlutu 9 1/2 vinning, en Petrosjan varð að láta sér nægja 7. sætið með 9 v. Næstu menn komu svo með 6 1/2 vinning, svo eitthvað hefur nú gengið á.

Ekki er ég frá því, að nú hafi Friðrik verið farinn að lýjast, því það að liggja yfir skákborðinu við endalausar rannsóknir í svo langan tíma sem raun bar vitni, hlýtur að vera þreytandi svo ekki sé meira sagt. Keppinautar hans höfðu verið virkir í langan tíma samfellt og því konmir á það stig að geta gengið að slíkum rannsóknum jöfnum höndum, sem hlýtur að vera mikilvægt. Auk þess eru íslenskir skákáhugamenn miklir kröfugerðarmenn og enginn fær náð fyrir þeirra augum nema með topp- árangri ef það dugar þá til.

Stundar ofþreyta og gamlir kvillar gerðu vart við sig og höfðu áhrif á Friðrik á næstu mótum, sem auk þess voru tefld við afgerandi slæmar kringumstæður, en nú leið að svæðamótinu og þar varð að leggja allt á eitt spil. Eftir afar óheppilegt tap í fyrstu umferð var allt á brattann sem eftir var. Friðrik sýndi í þessu móti aðdáanlega keppnishörku, því við hans verstu skilyrði tókst honum samt að komast í fremstu röð á mótinu og eftir marga frábæra sigra var hann kominn í þá aðstöðu, að vinningur í síðustu umferð færði honum rétt til úrslitakeppni um annað sætið á millisvæðamót. Eftir miklar þrengingar í upphafi skákarinnar tókst honum smám saman að snúa henni sér í vil og á ákveðnu augnabliki undir lokin í feiknarlegu tímahraki átti hann kost á að gera út um skákina. Stríðsgæfan var ekki til staðar og jafntefli varð óumflýjanlegt. Spá mín  er hins vegar sú, að Friðrik þurfi ekki að taka þátt í svæðamóti í næsta umgang, heldur fái þátttökurétt beint í millisvæðamót sem einn af 20 stigahæstu skákmönnum heims.

Frammistaða Friðriks Ólafsson á nýafstöðnu stórmóti í Beverwijk rekur óneitanlega gildar stoðir undir þá spá. Eftir fremur hægfara upphaf, þar sem hann sló öll sín fyrri met í jafnteflum í upphafi móts, eða sex í röð, sem er reyndar með ólíkindum af manni með skákstíl eins og Friðrik, þá herti hann á klónni og vinningarnir fóru að streyma inn. Þegar síðasta umferð rann upp var Friðrik kominn í sömu spor og í Tallin forðum. Vinningur í síðustu skákinni gat hrifið til hans efsta sætið, og sem orðinn reyndur í þessari stöðu vann Friðrik sannfærandi og varð efstur. Frábær sigur. Eins og sjá má á töflunni voru engar liðleskjur með á þessu móti, enda mótið í 12. styrkleikaflokki og gerast þau ekki öllu sterkari. Ljubojevic varð jafn Friðriki, en lægri á stigum. Hann fór að öðrum hætti af stað í mótinu og vann hverja skákina af annarri í upphafi. Hefur hann sennilega ofgert sér, því heldur fór af honum skriðurinn er á leið. Ljubojevic er, eins og áður er getið, einhver sterkasti stórmeistari vorra tíma og hefur oft verið nefndur sem líklegur kandidat um heimsmeistaratitilinn. Ennfremur er hann með eindæmum vinsæll sakir skákstíls síns. Þykir hann minna helst á Tal sjálfan eins og hann var bestur. Þessi júgóslavneski snillingur lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna og teflir ótrauður til vinnings meðan stætt er. Slíkur hugsunarháttur skapar ofurmennin.

Með þessum árangri bætir Friðrik fyllilega fyrir særindi áhangenda sinna undanfarna mánuði og rúmlega það. Nú getur engum dulist, að hann er til alls líklegur og æstu metorð standa í boði.

Af öðrum úrslitum var það markverðast, hvað Kurajica stóð sig vel. Hann hefur verið að geta sér orð í skákheiminum upp á síðkastið og þetta mót tók af allan efa um frægð hans hér á landi. Hann gerði sér lítið fyrir og bar sigurorð af þeim báðum stórkempunum, Tal og Ljubojevic, sem ekki neinum öðrum tókst á þessu móti. Fjórða sætið hreppti Tal og einhvern veginn finnst manni það ekki nógu gott hjá uppáhaldinu. Tal hefur um árabil átt við veikindi að stríða, sem skotið hafa upp kollinum við og við og þá auðvitað helst þegar síst skyldi. Ekki hafa þó neinar fregnir borist af slíku varðandi þetta mót, en óneitanlega eru jafnteflin orðin í miklum meirihluta hjá þessum glæsta sóknarskákmanni. Allra manna er ég ólíklegastur til að draga úr ágæti Tals, en þó er sagan góður kennari um það, að allar veislur taka enda og alltaf feta ungir menn í fótspor eldri meistaranna og komast oftast feti framar. Ekki veit ég að vísu um neinn arftaka Tals, enn sem komið er, til þess var hann og er allt of stórkostlegur. Hitt er svo annað mál, að eldglæringar sköpunarverka Tals eru ekki eins stingandi í auga og áður, þótt enn slái skærum bjarma á skákheiminn við og við.

1976: 38. alþjóðlega Hoogovens skákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1976 Hoogovens - tafla

Vinningshlutall 68%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu