1993: Goðsagnir gegn valkyrjum í Vínarborg

,,Gaman að sjá gömlu félagana eftir öll þessi ár“

 

,,Það er gaman að sjá gömlu félagana aftur eftir öll þessi ár, og hitta þessar ungu skákkonur sem eru að leggja undir sig skákheiminn. Það hefði ekki þótt líkleg þróun þegar við vorum upp á okkar besta,“ sagði Friðrik Ólafsson í samtali við Morgunblaðið áður en hann hélt til keppni í Vínarborg, þar sem nokkrir af bestu skákmönnum 20. aldar mættu fremstu skákkonum heims.

Hollenskur auðmaður hafði veg og vanda af mótinu, sem vakti mikla athygli, ekki síst fyrir þá sök að gömlu kempurnar máttu þola margan slæman skell. Sjálfur hafði Friðrik nálega ekkert teflt í tæpan áratug, og var því eðlilega nokkuð ryðgaður í fræðunum.

Með honum í liði voru Bent Larsen, Vassily Smyslov, Efim Geller, Borislav Ivkov og Andreas Dückstein. Að þeim síðastnefnda frátöldum var því um að ræða sannkallað stórskotalið, en kvennasveitin sýndi goðsögnunum enga miskunn.

Leikar fóru svo að valkyrjurnar sigruðu með 40,5 vinningi gegn 31,5 og stjarna mótsins var tvímælalaust Maia Chiburdanidze frá Georgíu sem fékk 9 vinninga af 12 mögulegum. Zsuzsa Polgar fékk 7,5 vinning gegn gömlu kempunum og heimsmeistari kvenna Xie Jun fékk 7 vinninga. Aðrar í kvennaliðinu voru Sofia Polgar, Alisa Galliamova og Ketevan Arakhamia Grant.

Bent Larsen náði flestum vinningum í hús fyrir karlaliðið, 7,5, og gamli heimsmeistarinn Smyslov fékk 6,5 vinning. Hinn eitilharði Geller mátti sætta sig við 50% vinningshlutfall, Ivkov fékk 5 vinninga, Friðrik 4 og Dückstein rak lestina með 2,5.

Friðrik vann tvær skákir og gerði fjögur jafntefli en mátti sætta sig við sex töp. Polgar-systur reyndust honum erfiðar en sigur gegn heimsmeistara kvenna var tvímælalaust talsverð sárabót.

Úrslitin sýndu, svo ekki var um að villast, að konur voru að brjótast til langþráðra áhrifa í ríki Caissu!

1993: Gamlir meistarar vs skákkonur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1993_gamlir-meistarar_vs_skakkonur_tafla

Vinningshlutall 40%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu